Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1059  —  657. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um vatnsréttindi.


     1.      Hvernig er það tryggt með lögum að almenningur hafi aðgang að vatni?
    Samkvæmt 1. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, skulu sveitarfélög starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er. Að öðru leyti er ekki kveðið á um það í lögum að almenningur hafi aðgang að vatni.

     2.      Hefur sú staða komið upp að sveitarfélög hafi þurft að kaupa vatn af einkaaðilum til að tryggja íbúum vatn til afnota?
    Samkvæmt 4. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga hafa sveitarfélög einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins. Sveitarstjórn er hins vegar heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt lögunum. Í þeim tilvikum sem sveitarfélag hefur falið stofnun eða félagi skyldur sínar samkvæmt lögunum er það í höndum einkaaðila að tryggja íbúum vatn til afnota.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvort sveitarfélög hafi þurft að kaupa vatn af einkaaðilum sem ekki hefur verið falið að tryggja íbúum vatn til afnota á grundvelli 4. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga.

     3.      Er vatnsveitum skylt að selja sveitarfélögum eða almenningi vatn?
    Vatnsveitum sem starfa samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga ber að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, hvort sem þær eru eingöngu í eigu viðkomandi sveitarfélags eða þær eru reknar sem félag sem er í meirihlutaeigu sveitarfélaga og annarra opinberra aðila.

     4.      Hvaða reglur gilda um verðlagningu á því vatni sem vatnsveitur selja?
    Stjórn vatnsveitu skal semja gjaldskrá og miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, ásamt kostnaði við að standa undir þeirri skyldu veitunnar að tryggja nægilegt vatn og vatnsþrýsting til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, sbr. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga.
    Nánar er fjallað um vatnsgjald í 6. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga þar sem fjallað er um mögulega útfærslu á vatnsgjaldi. Meginreglan er sú að vatnsgjald er þjónustugjald og skal þar af leiðandi uppfylla þær kröfur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar sem gilda um þjónustugjöld. Í því felst m.a. að óheimilt er að taka hærra vatnsgjald en sem nemur þeim kostnaði sem snýr að rekstri vatnsveitu sem rakinn er í 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti gaf út leiðbeiningar vegna ákvörðunar vatnsgjalds þann 7. maí 2021 í máli nr. SRN19040044 sem hægt er að nálgast á vef stjórnvalda, www.urskurdir.is.

     5.      Í hvaða sveitarfélögum, ef einhverjum, er vatnsskortur?
    Í ljósi þess að það eru sveitarfélögin sjálf sem annast rekstur vatnsveitna, eða félög sem þau fela að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, hafa einstakar vatnsveitur yfirsýn yfir magnstöðu á köldu vatni í hverju sveitarfélagi fyrir og á hverjum tíma fyrir sig. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga ber innviðaráðuneyti ekki að halda utan um slíkar upplýsingar og liggja þær því ekki fyrir hjá ráðuneytinu.
    Þess má þó geta að skv. 4.–6. gr. laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, er landið eitt vatnaumdæmi og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti skal skipa vatnaráð sem hefur m.a. umsjón með gerð tillögu að vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun á sviði vatnamála og eru áætlanirnar nánar skilgreindar í lögunum. Lög um vatnamál eru á málefnasviði umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra og því rétt að beina fyrirspurn um framkvæmd þeirra laga til þess ráðherra.